miðvikudagur, febrúar 15, 2012

Dagur 345 ár 7 (dagur 2900, færzla nr. 1081)

Þá er annar flokkur kominn, sem við skulum stúdera aðeins: það er Lýðfrelisflokkurinn. (Liberal democrat)

Þeir segjast vera til hægri við miðju. Kjaftæði segi ég. Útskýri það í og með á eftir.

Stefnumál þeirra:

Skattamál:

Komugjöld í heilbrigðisþjónustu

Komugjöld á sjúkrahús og aukin þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði eru meðal þeirra breytinga, sem orðið hafa á heilbrigðiskerfi undanfarinna ára.

Þjóðfrelsisflokkurinn vill stefna að eftirfarandi gagnbreytingum:

1. Fella niður eða lækka komugjöld.

2. Stuðla að því að hið opinbera taki aukinn þátt í lyfjakostnaði sjúklinga.


Mjög sósíal. Og merkilegt nokk, akkúrat parturinn af sósíalinu sem hefur verið að klúðrast í allnokkurn tíma núna.

Af hverju ekki komugjöld, samt? Ég meina, það eru ekkert fáir sem hreinlega teppa spítalann með ímyndunarveiki.

Veggjaldið

Sátt hefur ríkt um það meðal þjóðarinnar í marga áratugi að vegagerð skuli greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Fjármögnun til vegagerðar hefur fengist með gjaldtöku á bifreiðum og eldsneyti.

[...]


Sama sama... en þýðir þetta að veggjaldið fari þá í vegagerð? Það væri nýtt...

Himinhá lóðagjöld

Himinhá lóðagjöld sveitarfélaga, sem sprengt hafa upp húsnæðisverðið á höfuðborgarsvæðinu, er enn eitt dæmið um breytta og aukna gjaldtöku. Slík aukin gjaldtaka er enn einn aukaskatturinn, sem lagður hefur verið á fjölskyldur í landinu af stjórnvöldum síðari ára.


Point.

Hátekjuskattur

Lýðfrelsisflokkurinn er andvígur því að settur verði á hátekjuskattur. Þeir sem mest bera út bítum eru þeir sem mesta skattbyrði bera, en skattbyrði upp á um og yfir 40% er í raun meiri en góðu hófi gegnir. Hætta er á að slíkir skattar skili sér ekki í ríkissjóð, þar sem hætta er á að skattsvik aukist og fyrirtæki í auknum mæli flytjist af landi brott.


Sumir hér í eyjum geta alveg skrifað undir þetta.

Annað:

Lýðfrelsisflokkurinn stefnir að aðild að ESB og upptöku evru.

Og það hjálpar vegna þess að?

Til að leysa gjaldeyriskreppuna sem nú geisar og til að tryggja sem fyrst jafnvægi í gjaldeyrismálum og í fjármálum landsmanna.

Hagstjórnarvandamál sem verður - horfum á þetta raunsætt - aldrei leyst.

Verði samþykkt að sækja um aðild að ESB og verði sá samningur samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu (sama og Lilja Mó sagði, í raun) þá mun fara í gang ferli sem tekur 3 til 6 ár við að uppfylla Maastricht skilyrðin. (Yeah right)

Ef þjóðin hafnar aðild að ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður að vera til “Plan B”. Plan B hjá okkur í Norræna borgaraflokknum er að taka einhliða upp evru sem verður okkar framtíðargjaldmiðill

Uhm... jæja. Af hverju ekki dollar?

Samhliða einhliða upptöku evru þá verði tilkynnt að unnið verði að því að komandi árum að uppfylla Maastricht skilyrðin og þau verði kjarninn í fjármálastefnu landsins.

Gangi ykkur vel með það.

Maastricht skilyrðin:

· Verðbólga sé ekki meira en 1½% meiri en í þeim þremur Evrópusambandslöndum sem hafa minnsta verðbólgu,

· Að í eitt ár séu meðalnafnvextir á langtímabréfum að hámarki 2% hærri en í þeim þremur löndum Evrópusambandsins sem hafa lægsta verðbólgu,

· Að viðkomandi land hafi verið í gengissamstarfi Evrópu ERM í að minnsta kosti tvö ár án gengisfellingar og innan vikmarka.

· Að fjárlagahalli sé ekki meiri en 3% af VLF.

· Heildarskuldir hins opinbera mega ekki vera meiri en 60% af VLF.


Hljómar ekki líklegt. Ekki með "venjulegt fólk"* við völd.

Afskipti ríkisins af atvinnulífinu skulu vera eins lítil og mögulegt er og einkennast af því að setja trausta og ekki of flókna lagaumgjörð og reglur á markaði og fylgja þeim eftir af mikilli festu. Aðhaldi skal beitt í ríkisrekstri og til lengri tíma skal stefnt að lækkun skatta og þjónustugjalda.

Ja, lengra til hægri en Lilja Mó.

Virkjunarframkvæmdir og stóriðja verða enn um sinn vaxtarbroddur, a.m.k. næstu 5-10 árin. Algjörlega er nauðsynlegt að undirbúningur hefjist sem allra fyrst að nýrri sókn í iðnaði og beina þá sjónum okkar að öðru en stóriðju, því ekki er skynsamlegt að vera með öll eggin í sömu körfu.

Hljómar ekki illa.

Verum ófeimin við að nýta náttúruauðlindirnar.

Okkar markmið er að byggja hér upp eins hratt og kostur er atvinnustarfsemi sem tryggir okkur að vöruskipti Íslands við útlöndu verði okkur alltaf hagstæð næstu þrjá áratugina.


Þveröfugt við núverandi stjórn.

*venjulegt, þá eins og það sem hefur verið við völd síðan 1944.

Jæja, þetta er svona það helsta. Það er langur listi þarna á síðunni hjá þeim, endilega kíkið á hann.

Þessi flokkur er strangt til tekið við miðju, ekki til hægri. Jú, samanborið við Samspillinguna eða VC þá eru þeir hægri öfgamenn, en í raun, ekki. Þeir eru á svipuðum slóðum og Sjálfstæðisflokkurinn er á í orði. Ef við miðum við hvar XD er á borði, þá eru þeir til hægri við hann.

Þeir vilja mikið potast í menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu - veit ekki hvort það er allt til batnaðar, en þeir segjast líka vilja að Ríkið hætti að liggja eins og mara á öllu og öllum.

Þeir munu aldrei í lífinu ná að standa við það að taka upp evru, svo það skiftir engu máli. Burtséð frá því eru þeir ekki fjandsamlegir atvinnulífinu, sem er gott. Lilju Mó var svolítið mikið uppsigað við það.

Það er einhver fasísk ára yfir flokknum sem mér líkar ekki við, en þar sem mótframboðin eru kommúnísk, þá er það víst það skárra af tvennu illu. Að mínu mati er þessi nokkrum skörum skárri en XC, sem aftur er skárri en flokkurinn hans Gumma Steingríms.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli