laugardagur, apríl 14, 2007

Dagur 37 ár 4 (dagur 1132, færzla nr. 536):

Það fór fram smá drykkja í gær. Líður enn hálf-ferlega eftir það. Það mun batna, fæ mér kók á eftir, kannski hamborgara eða eitthvað.

***

Nissan Patrol eru örugglega mest hægfara ökutæki sem völ er á. Ég er viss um að kranabíll tæki Patról í spyrnu. Ég meina, man einhver eftir að hafa verið stunginn af á einhverjum á Patról? Svo er þessum farartækjum aldrei ekið öðruvísi en með hægri fótinn fast við gólfið, með tilheyrandi reyk og hávaða.

Ég var á eftir einum í gær, helvítið hafði ekki í við lengri gerðina af Ford Transit með kæliboxi, og ég var ekkert sérstaklega að þenja bílinn. Fór aldrei yfir 3000 snúninga. Djöfulsins druslur. Og þetta kaupa menn viljandi, fyrir pening? Svei!

Ég veit alveg hvernig þessir bílar virka, ég sé það núna:

Nissan Patról er settur í gang, í gír, og svo er hann staðinn flatur. Þá fer bíllinn svo hægt, hægar en allt sem hægt er, hægar jafnvel en kjurt. Svo hægt að hann ferðast aftur í tímann. Sem er náttúrlega alveg bannað, og þá taka tíma-púkarnir við sér, svo bíllinn endi ekki á Napóleonstímanum, og þeir raða sér umhverfis hann, og bera hann á milli sín á leiðarenda, á meðan einn þeirra sér um að rúlla kílómetramælinum. Þess vegna virðis bíllinn hreyfast um í rúmi. En þetta eru mjög þung farartæki, svo púkarnir okkar komast ekki mjög hratt, sem er ástæðan fyrir þessu slóri. Þeta er líka ástæðan fyrir lágri bilanatíðni í þessu.

Svo eru hinar rollurnar, sem fá sér Landcrusher jeppa, sem eru lítillega öflugri, og eru því næstum jafn snöggir og skriðjöklar. Það er vegna þess að þeir eru jafn þungir og slíkir.

Svo renna menn um á þessum traktorum sínum, fyrir hvar sem þeir fara.

Ég veit ekki hvað þetta lið er að spá. Í alvöru. Að kaupa sér ekki almennilegan bíl, ef þeir hafa efni á því. En nei! Þeir vilja jeppa með snerpu á við plöturek með akstureiginleika steypubíls. Eða Pajero, sem er eins og Toyota Hi Ace í akstri.

Það eru nokkrir jeppar þarna úti sem eru alveg í lagi - Range Rover til dæmis. Svo er Suzuki Jimni, sem er þeirrar náttúru að komast um öll fjöll að mestu óbreyttur, eða bara Porsche Cayenne, sem er sportbíll dulbúinn sem jeppi.

***

Talandi um bíla; ég las það einhversstaðar að það væru uppi hugmyndir um að vera með ókeypis bílastæði fyrir umhverfisvæna bíla.

Hmm... hvað sem það þýðir. Til dæmis, þegar öll kurl eru komin til grafar, þá er Ford F-350 umhverfisvænni en Toyota Prius. Jamm. Toyotan eyðir aðeins minna - skuggalega miklu samt miðað við alla tæknina sem er í gangi - en: það fer gífurleg orka í að smíða hana, þessi léttu plastefni, þessar tvær vélar með öllum þessum speis-efnum og svo náttúrlega rafgeymarnir. Við framleiðslu á einum Prius losnar meira koldíoxíð en við framleiðzlu á Ford F-350 og akstur á þeim bíl í einhverja 2-300.000 kílómetra. Og það versnar, því Priusinn endist víst ekki nema 150.000 kílómetra.

Fæ ég þá frítt stæði fyrir F-350 bílinn sem ég fæ mér þegar orkukreppan skellur á?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli