fimmtudagur, október 25, 2007

Dagur 245 ár 4 (dagur 1329, færzla nr. 602):

Alltaf þegar ég hitti foreldra mína, eða Braga á flugvellinum, þá spyrja þau hvort ég sé búinn að ná mér í kærustu. Að því loknu spyrja þau (en ekki Bragi) hvort Reynir sé búinn að ná sér í eina svoleiðis.

Nei, segi ég, við mikla undrun spyrjenda.

Sem aftur veldur mér undrun. Það er ekki eins og kvenfólk sýni mér sérstakan áhuga. Sem er í sjálfu sér áhugavert. Nóg virðist nú vera af þeim hérna. En ég er náttúrlega í Háskólanum, og eins og Nietzche segir: Ef kvenfólk hneigist til mennta bendir það til þess að það sé eitthvað að því kynferðislega.*

Einusinni bauð ég nú einni út, og hún varð svo óttaslegin að ég hef aldrei séð annað eins. Ég meina, ef ég hefði sagað af henni alla útlimina, og væri að búa mig undir að saga hana í tvennt eftir endilöngu hefði ég alveg búist við svona skelfingarsvip, en ekki við að ég byði uppá mat.

Sem fær mig til að hugsa: hve ógnvekjandi er í alvörunni að vera boðið uppá snarl af mér? Gæti ég valdið almennri ógn í þjóðfélaginu með svona tilboði?

Allt í lagi: ég býð þá hvaða dömu sem það vill þyggja uppá te og kex. Ég bít ekki mikið. Þið getið hringt á undan, það er smá vandamál að ná sambandi við mig ef ég er heima, þannig að ef ég svara ekki, þá er ég sennilega heima.

Og nú er bara að bíða á meðan allt kvenfólk sem les þetta felur sig inní skáp og byrjar að skjálfa óstjórnlega.

***

MBL fréttin:

Lögreglan: Ótrúlegt að ekki skyldi verða stórslys


Hmm... gæjinn ók á stein á yfir 100 kmh og fór 200 veltur. Það er svolítið magnað slys, ekki satt?

„Bíllinn tættist yfir stórt svæði og ótrúlegt að ekki skyldi verða stórslys þarna," sagði varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Varðstjóri lögreglunnar er mikill bögubósi. "Bíllinn tættist í sundur og dreyfðist yfir stórt svæði," eða bara "tættist" eða "dreyfðist." Veldu eitt.

Vélin mun hafa þeyst úr bíl sem valt eftir að hafa verið ekið á miklum hraða á norðurleið eftir Kringlumýrarbraut í Reykjavík á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Öðrum bíl? Og orsök slyssins er að bílnum var ekið eftir Kringlumýrarbraut? Vá... magnað alveg.

Bíllinn sem var af BMW gerð hreinlega tættist í sundur og hjólastell rifnaði undan honum er hann valt.

Ekki nóg með að bíllinn hreinlega tættist í sundur, hlutir duttu líka af honum! Hvernig gat það skeð samtímis! Þvílíkt högg!

Kringlumýrarbraut var lokuð í um tvo tíma.

"í um" er náttúrlega stytting á "í um það bil," ekki satt?

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni mun ökumaðurinn hafa misst stjórn á bíl sínum, farið upp á umferðareyju og bíllinn oltið.

Á hinn bóginn gæti hann hafa miðað gætilega á þessa umferðareyju, og velt bílum viljandi.

Bíllinn tættist í sundur og endaði á ljósastaur sem féll yfir götuna.

Klifun. Bíllinn tættist í sundur svo mikið að hann tættist í sundur og datt í sundur og tættist og hrundi og dreyfðist um víðan völl á 200 metra svæði. HALTU KJAFTI!

Brak dreifðist á um 200 metra kafla um götuna.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja... Aftur þetta "á um", "í um" bull. Brak dreyfðist yfir 200 metra kafla. Það dreyfðist ekki "á um" neitt.

Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild Borgarspítalans en eftir athugun fékk ökumaður að fara heim ómeiddur en farþegi hans dvelur þar nú til frekari rannsókna en er ekki alvarlega slasaður.

BMW er greinilega einn öruggasti bíll í heimi. Svo mjög að ríkið ætti að fella niður tolla og vörugjöld af þeim til öryggis fyrir almenning.

En að orðalaginu: en eftir athugun fékk ökumaður að fara heim ómeiddur

Er verið að ýja að því að sumir séu meiddir viljandi á sjúkrahúsinu áður en þeim er sleppt?

Ökumaðurinn mun vera um tvítugt og að sögn lögreglu er hann grunaður um ofsaakstur og hefur verið sviptur ökuréttindum ævilangt.

Uppáhalds orðskoffín fréttamanns, við hlið "tættist í sundur" er "um": "í um," "á um," "mun vera um." Mér finnst að hann ætti að hætta þessu.

Annars finnst mér merkilegt að fólk sé ekki farið að heimta að peyjinn verði tekinn af lífi, slíkur er fasisminn orðinn hérna.

Málið fer í rannsókn innan skamms en fjöldi vitna er að slysinu og einn bíll sem kom úr gagnstæðri átt er óökufær eftir að hafa fengið á sig brak úr bílnum sem olli slysinu.

Þessi málsgrein er of löng.

"Málið verður rannsakað fljótlega (þegar þeir eru búnir að fara yfir meira spennandi mál, eins og spíttbátinn og Baugsmálið). Það voru mörg vitni að slysinu. Bíll sem kom úr gagnstæðri átt er óökufær eftir að hafa orðið fyrir braki eftir slysið."

Jamm.

*Handan Góðs og Ills.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli