miðvikudagur, ágúst 20, 2008

Dagur 169 ár 4 (dagur 169, færzla nr. 708):

Það var eitthvað bug-fix í gangi þann 14. Það útskýrir ýmislegt...

***

Mikið hefur það vafist fyrir mér þetta smá-stríð þarna í Georgíu. Við fyrstu sýn virtust Georgíumenn hafa einhvernvegin kallað þetta allt yfir sig - en það er ekki alveg svo einfalt. Þetta var allt aðeins of heimskulegt.



BMP3

Skoðum þetta nánar:

Þarna er Georgía, land sunnan við Rússland, nýsloppið úr Sovétríkjunum. Í því er Suður Ossetía, sem er syðri hluti Ossetíu sem slíkrar, sem er eins og tímaglas í laginu, og liggur mittið á einhverjum fjallgarði þarna, og helmingur "landsins" í Rússlandi. Sem er óheppilegt.

Georgíumenn vilja ekkert koma nálægt rússum, og Ossetíumenn vilja helst vera í eigin landi, en ekki einhverjar sýslur í öðrum löndum, en til vara þætti þeim flott að vera í Rússlandi.

Og Rússum líkar alls ekkert við þetta NATO brölt Georgíumanna, enda NATO á góðri leið með að blokkera þá frá evrópu - NATO er í Póllandi, Eystrasaltsríkjunum, hér og þar. Svo myndi Georgía fara í það batterí, og er þá að umkringja Svartahafið. Rússum er annt um Svartahafið.

Og Rússum er ekkert ofur-vel við NATO, það er nú vondi kallinn síðan... ja, frá því NATO varð til, eiginlega. Það var jú tilgangurinn með NATO var það ekki?



BMP2 (er til sölu ef einhver hefur áhuga)

Fannst ykkur ekki Rússarnir fljótir að taka við sér þegar þeir voru beðnir um hjálp? Mér fannst það.

Svo kemur Abkasía inn í þetta einhvernvegin. Sennilega eins. Mig eiginlega skortir upplýsingar um það mál allt, og nenni ekki mjög mikið að tékka.

Í gegnum Georgíu liggur afar mikilvæg olíuleiðzla. Gleymum henni ekki.

Hvað um það, einhverjir þrjótar í Ossetíu voru að föndra við það að skjóta á hitt og þetta, með fallbyssum, segja sumir. (Sem myndi útskýra skriðdrekana.) Og Georgíumenn brugðust við því. Þá var þetta enn innanríkismál.

Hvað um það, Georgíumenn æða inn í... ekkert í rauninni, þeir fóru aldrei út úr eigin landi, Ossetía er enn í Georgíu, er það ekki? Hún var það þá. Þeir eru enn að rífast um þetta landamerkjamál sitt.

Og hvað gera Ossetar þegar það á aðeins að taka í þá fyrir óknyttina? Jú, þeir hringja í Rússa, sem eru í startholunum, og koma æðandi á APCunum sínum og þyrlunum, og bara keyra yfir Georgíumenn. (Horfið á þetta í fréttunum - segið mér ef þið sjáið skriðdreka einhversstaðar, ég hef séð voða mikið af personnel carrierum, (BMP1, 2 & 3) en man ekki eftir einum skriðdreka - nema þessi brunnu hræ fyrstu dagana.) Það er búið að fara yfir það allt í fréttum - Rússar eru með um það bil 100X meiri herafla en Georgíumenn, og það er bara við þessi landamæri. (Hmm.)

Þetta mál er farið að líta út fyrir mér svona eins og ef Austur-Skaftafellssýsla myndi lýsa yfir sjálfstæði, og einhverjir pjakkar færu að plaffa eitthvað með kindabyssum, og Sérsveitin mætir, og þá hringja austur-skaftfellingar bara í Norðmenn...

Hvað um það. Þessu kalli eru Rússar búnir að vera að bíða eftir, ljóslega. Þeir mæta nánast strax með fullt af liði (í APC farartækjum) - aðeins of fljótt finnst mér - og þá byrjar ballið.

Inn á milli er öskrað "Þjóðarmorð!" "Innrás!" & "Hugsið um börnin!" og við fáum eilítið kómíska mynd af gamalli kellingu sitjandi í logandi rústum á forsíðu moggans. Ef sú mynd var ekki sviðsett eru gjöreyðingavopnin hans Saddams raunveruleg.

Og nú eru Rússar út um alla Georgíu. Með olíuleiðzlu. Þeir fara ekki neitt. Ég sé fyrir mér að þeir séu ögn pirraðir á hvað NATO nálgast þá mikið úr öllum áttum. Svona eins og í Risk...

Já, það er alltaf áhugavert þegar önnur lönd koma inn í innanríkisdeilur.

Ég sé ekki fyrir mér að NATO vilji snerta þetta mál of mikið - eða hafi efni á því. Þetta er fullkomlega tímasett hjá þeim, þeir mega eiga það. Að ryðjast svona inn áður en landið kemst í NATO.

Fer Ossetía þá í Rússland? Er það mjög sniðugt... fyrir Rússa? Ja, þeir eru sennilega skárri en þetta lið sem Kaninn finnur hjá sér þörf að sitja yfir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli