þriðjudagur, janúar 01, 2013

Dagur 299 ár 8 (dagur 3220, færzla nr. 1167)


Það er nýársdagur, kominn tími til að völvast:

Hvernig tókst til seinast:

Innanlands:

Ríkisstjórnin heldur áfram að reyna að koma landinu á hausinn. Þau gera eitthvað frámunalega heimskulegt sem gerir lífið verra og leiðinlegra. Fleiri en 1000 flytja héðan fyrir vikið.

Allir peningarnir halda áfram að fara í AGS.

Eins og að spá því að sólin kæmi upp.

Hell's Angels bjóða sig fram til Alþingis. Þeir fá ágætis fylgi, enda ekki þekktir fyrir jafn víðtæk og skaðleg glæpaverk og þeir sem venjulega bjóða sig fram.

Svo heppin vorum við ekki.

Reykvíkingar finna sér fullt af nýjum og áhugverðum hlutum til að vera hræddir við.

Hvað eru þeir hræddir við núna?  Sama og seinast, held ég.

Katla gýs loksins. Í vor. Það verður vinsælt út um allan heim.

Nei.  Sem þýðir að ég get endurnýtt þennan spádóm.  Það er afar umhverfisvænt.

Kokkur myrðir 60 manns með rottueitri á einhverju þorrablótinu. Eftir það verða sett lög sem gera það nánast ómögulegt fyrir nokkurn mann að gerast kokkur á Íslandi.

Nei, en hefði verið töff.

Í Útlöndum:

Norður Súdan fer í Stríð við Suður Súdan.

Ég vissi að þetta myndi gerast

N-Kóreumenn gera smá-árás á S-Kóreu til að beina athyglinni frá smá erjum sem topparnir þar eiga í.

Bara með heitu lofti, kannski smá andremmu.

Í Kína hefjast svo miklar óeirðir að það verður ekki hægt að halda þeim leyndum.

Slatti af þeim.

Heimurinn stefnir nær þriðju heimstyrrjöldinni. Ég hef hana setta á 2018.

Ég verð að halda mig við þann spádóm.

En á næsta ári?

Ja...

Á næsta ári kemur sólin nokkrum sinnum upp.

Fólk heldur áfram að flytja til Noregs, Kanada og annarra landa þar sem betur gengur... td Írlands.

Í kosningunum á næsta ári fær fjórflokkurinn 85% atkvæða.  Hin 15% sem vilja breyta til fá ekki einu sinni mann inn.  Hlutföllin breytast þó eitthvað - D fær 30%, S fær 20%, VG fær 10% og B fær 15%.  Sem sagt, hrein vinstri stjórn, eins og venjulega.

Ekkert af tjóninu sem núverandi stjórnvöld hafa valdið verður lagað.

Fyrsti skotbardagi Íslandssögunnar verður, þegar meðlimur í Hell's Angels hleypir af einu skoti á meðlim í Black Pistons, og hittir ekki, og Black Pistons meðlimurinn hleypir af einu skoti á móti, og hittir ekki heldur.  Víkingasveitin mætir á svæðið hálfíma síðar og lemur nokkra unglinga sem koma málinu ekkert við.

Herjólfur sekkur.

Og að lokum verður þjóðargjaldþrot rétt fyrir næstu jól.

Af útlöndum verður það að segja:

Evrópa heldur áfram að sökkva í kreppuna.

Kínverjar innlima Tíbet og Tævan algjörlega.

Obama eykur hernaðinn í Afghanistan enn meira.

Starfsmaður í SeaWorld werður étinn af sæljónum.

Allir eru orðnir leiðir á Gangnam style, hvað næst?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli