laugardagur, ágúst 05, 2006

Dagur 150 ár 3 (dagur 880, færzla nr. 436):

Í tilefni útihátíða:

Fyrir mörgum árum var svo mikið um slagsmál, bæði um venjulegar helgar og á útihátíðum, að það þótti ekki fréttnæmt nema í framhjáhlaupi. Þá var alltaf "nokkuð um slagsmál", eins og það var orðað.

Síðan þá eru liðin mörg ár, og margt hefur breyst. Núna er svo lítið um slagsmál að það þarf að fylla upp í fréttir með nákvæmum lýsingum á einu slagsmálunum sem fóru fram þessa vikuna/þennan mánuðinn.

Hvað veldur? Við vitum það öll: Það er aukinn aðgangur að og lægra verð á brennivíni.

Svo ég útskýri:

Fyrir 20 árum var bjór bara ólöglegur. Fólk var talið svo vitlaust að því var hreinlega bannað að neyta drykkjarins innan lands. Ef ríkið hefði fengið að ráða hefði það verið ólöglegt utan lands líka.

Og verð á brennivíni hefur alltaf verið hátt og það hefur ýtt undir landabrugg, sem er bara hið besta mál; eini ljósi púnturinn á málinu. Þetta olli því (og veldur enn) að í stað þess að drekka smá öl með mat stundum, þá er lagt fyrir til að geta hellt ærlega í sig á vissum tímum.

Nú er það svo að fólk er líklegra til ofbeldisverka þegar það er blindfullt. Sem þýðir, að hér til forna, á miðöldum meina ég, fyrir 20 árum, þá hellti fólk sig svo fullt að það vissi varla í þennan heim, og svo var barist. Þá var gaman, er ég viss um.

Svo var bjórinn leyfður, með semingi þó, og nokkru seinna var farið að leyfa skemmtistöðum og krám að hafa opið allan sólarhringinn. Við þetta dreyfðist drykkja nokkuð, auk þess sem hún færðist frá brennivíni yfir í bjór, sem er talsvert léttara stöff. Rússar standa í þeirri meiningu að bjór sé gosdrykkur, svo þar hafiði það.

Allt þetta róaði fólk. Allt í einu fékk fólk að hanga á barnum, þar sem það gat sopið öl í rólegheitum, í stað þess að hella í sig af áfergju fyrir lokun. Munurinn er augljós þeim sem sáu rúntinn bæði fyrir og eftir.

Nú er fólk farið að drekka smá vín líka. Mest er það fyrir snobb. Fólk er enn að hella sig fullt, en það þykir fínna að lyggja í rauðvínsælu en landaælu. Bara rónar lyggja í landaælu.

Svo er líka borðað með víni. Það tíðkaðist ekki á mið... fyrir 20 árum. Matur er góður fyrir þig. Það langar engann að berjast á fullan maga.

Og nú?

Það er búið að skemma útihátíðir. Þetta var flott stríðsástand hér á miðöl... fyrir 20 árum. Nú, þá eru slagsmál svo fátíð að þau eru fréttnæm en ekki bara tölfræði. Nauðgun er bara orð sem femínistar segja. Bílslys hefur ekkert með vatn að gera lengur, og fólk lifir þau skuggalega oft af.

Náðarhöggið væri að lögleiða eiturlyf, og þá er ekkert gaman lengur; engir eiturefnavoffar, engir spennandi eltingarleikir við hugsanlega morðóða smyglara, engar fáráðlegar aðferðir til smygls.

Það verður ekkert eftir fyrir veiklundað fólk að nöldra yfir nema mótorhjólamenn.


Það er of kalt á Íslandi. Augljóslega.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli