fimmtudagur, október 26, 2006

Dagur 232 ár 3 (dagur 962, færzla nr. 469):

Versti bíll í heimi.

Sum okkar hafa væntanlega velt því fyrir sér hvaða bíll er sá versti í heimi. Ég ætla að benda á nokkra góða kandídata, í réttri röð:

1985 Cadillac diesel



Kostir: Flottur bíll, rúmgóður og þægilegur.
Gallar: Diesel vélin er allsekkert diesel, heldur venjuleg 350 vél sem hefur verið fittuð til að ganga á diesel olíu, með þeim afleiðingum að það kemur í hana þreyta og hún springur eftir svona 15-20.000 kílómetra.

Ástæða til að eiga: Cadillac er fínn bíll, og þú átt alvöru vél inni í bílskúr sem þú veist ekki hvað þú átt að gera við.
Ástæða til að gleyma þessu bara: Það kostar að skifta um mótor.

Kaldhæðni: GM framleyddi ágætis díselvélar á þessum tíma, en samt ákvað einhver snillingur að gera þetta svona.

Hvað skal gjöra: Fáið ykkur einn með 5.7 lítra bensínvél.

VW bjallan (nazistatímabil - 2004-5)



Kostir: nettur, lítur þokkalega út, ódýr og einfaldur.
Gallar: Gæti verið nettari, eyðir miklu, ekkert virkar eins og það á að virka.

Ástæða til að eiga: Þú vilt aka um á Expressjónísku listaverki síðan á tímum Þriðja ríkisins. Listaverkið þitt er líka gott í snjó.
Ástæða til að gleyma því bara: Listaverkið þitt eyðir meira en Chevy bel Air.

Saga: Hitler lét framleiða þetta til að allir gætu átt bíl. Hann leit svo upp til Henry Ford, sko. Þetta var niðurstaðan. Bíll sem var svo ódýr að allir áttu að hafa efni á honum, og svo einfaldur að allir áttu að geta gert við hann.

En nú, 70 árum seinna?

Sjáið til, það er lífseig þjóðsaga að fólsvagen bjallan sé sparneytin. Vissulega eyðir hún minna en ýmsir amerískir bílar; til dæmis Kenwort, Freightliner og Greyhound... En staðreyndin er sú að 2006 módel Lincoln Town Car eyðir minna. Umhverfisverndarsinnar: gleymið þessu. Á ég að halda áfram að telja upp nýja bíla sem eyða minna? Cadillac Seville, Volvo S80, Chevrolet Suburban, Rolls Royce... etc...

Árið 1930 voru stigbretti á öllum bílum. Það eru því stigbretti á Bjöllum. Sem gerir þær svona feti breiðari en þær þurfa að vera miðað við innanmál. Annar slæmur galli er að miðstöðin blæs köldu á veturna en heitu á sumrin.

Hvað skal gjöra: Fáið ykkur 1985 Cadillac með 5.7 lítra bensínvél. Hann eyðir minna og bilar sjaldnar. Eða Aygo, sem kostar jafnmikið og heill gámur af gallabuxum.

Yugo



Kostir: passar í flest stæði.
Gallar: þegar það er búið að leggja honum, er eins víst að það verði að draga hann í burtu.

Ástæða til að eiga: gott skotmark ef maður á byssu.
Ástæða til að gleyma því bara: Þó þessi bíll eyði ekki nema kannski 6 á hundraðið, þá koma vélarbilanir og almennt vesen til með að valda því að það mun kosta meira að eiga þennan bíl en nokkurn annan á veginum.

Að hugsa sér, en sama fyrirtæki framleiðir bara nokkuð góða riffla.

Hvað skal gjöra: Fáið ykkur frekar riffil frá sama fyrirtæki. Ég mæli með Zastava M-70. Notið hann til að skjóta bílinn.

Thomsensbíllinn



Kostir: Það er gaman að benda og hlæja.
Gallar: Slæm ergonomík, ótæk bilanatíðni, glötuð hönnun.

Ástæða til að eiga: Þú ert Þjóðmynjasafnið.
Ástæða til að gleyma því bara: Ford T er miklu betri bíll.

Stýrið á þessu er 90°. Er það þægilegt? Nei. Það er ekkert þak á þessum bíl. Sennilega engin miðstöð heldur. Öryggi? Ja, það er betra að aka bílnum en verða fyrir honum. Framsætið er ömurlegt. Aftursætið er hálf fáráðlegt líka, og hver er sagan á bakvið þessa blæju? Nær hún yfir allan bílinn? Sýnist ekki. Hvað á þá að gera ef rignir? Og hvar er framrúðan? Kannski er betra að það sé engin framrúða, því það eru þá engar rúðuþurrkur, sem er bara enn eitt tækið til að bila.

Sagan segir að þetta apparat hafi kostað 2000 kall. Sýnist mér það gott verð fyrir svona tæki - að núvirði. Ekki veit ég hvað hann eyddi, en mig grunar að það skifti ekki máli, þar sem hann hefur varla komist 100 km til að gera mælinguna marktæka.

Hvað skal gjöra: í gamla daga var vinsælt að taka Thomsensbílinn úr handbremsu og láta hann renna niður Laugarveginn. Mun það hafa verið hin besta skemmtun. Gerið það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli