mánudagur, desember 31, 2007

Dagur 311 ár 4 (dagur 1395, færzla nr. 635):

Þá er árið að fara að klárast, og tími til að skoða hvað af spádómum mínum síðan í janúar hafa gengið eftir:

Ég verð illa svikinn ef Fidel Castro hrekkur ekki uppaf í ár.

Ég er illa svikinn. Árið skuldar mér afsökun.

það verða kosningar. Þær munu fara svona: D fær 40%, S fær 25%, VG fær 10%, F fær 7-8%, B fær 10%

VG fékk 14%, en að öðru leiti var þetta rétt hjá mér. En, að spá um úrslit kosninga á íslandi er svona eins og að spá því að nóttin verði dimm á eftir.

Það verður jarðskjálfti í Kalíforníu aftur.

Það urðu alveg jarðskjálftar, en ekki í Kalíforníu.

það heldur áfram að vera ólga í mið-austurlöndum,

Right on.

fólk í fréttum mun halda áfram að vera illa máli farnir vitleysingar.

... og horfir ekki til bóta á næsta ári.

Greiningadeild ríkislögreglustjóra mun ítrekað verða sér til skammar á komandi árum, en mun ekki verða lögð niður fyrir vikið.

Hvað gerir greiningardeildin annars? Ekki voru það þeir sem leyfðu öllum þessum bófum að rápa inn og út úr landinu? Eða hvað...?

Lögreglan verður verr og verr liðin eftir því sem hún sekkur dýpra í fasisma, en eftir því sem hún sekkur dýpra í það fen nær hún fleyri dópdílerum og neytendum, svo og öðrum aðilum sem ekki töldust glæpamenn í fyrra en eru það nú.

Samkvæmt fréttum stemmir þetta hjá mér. Og ekki bara það, heldur er hér á ferðinni fullkomlega endurnýtanlegur spádómur. Hann verður alltaf sannur.

Ríkið mun klúðra einhverju.

Það er það sem Ríki gera. Hugsið ykkur, ef ekki væri fyrir Ríkið, myndi svo fátt klúðrast að til hagsbóta horfði. Við getum ekki haft það.

Gæjinn sem rann á bananahýði og kveikti því óvart í á 11 stöðum í eyjum fyrir algjöra slysni og óvitahátt næst, en verður sleppt aftur að lokinni yfirheyrzlu. Þá rennur hann til í hálku og kveikir óvart og fyrir einbera slysni í á tveimur stöðum í viðbót.

Það var einhver tekinn til yfirheyrzlu. Ég tjái mig ekkert um það, vitandi ekkert um það mál.


Færri munu deyja í umferðinni í ár, en til að vega upp á móti því munu fleyri slasast, því vegna hraðatakmarkana munu gangandi vegfarendur gera sig heimakomna úti á miðri götu í meira mæli en áður.


Satt og rétt, sýnist mér.


Það fer að gjósa einhversstaðar. Ég er viss um það. Í Heklu eða einhversstaðar. Það hefur ekki komið gos svo lengi.


Ég er enn að bíða. Landið hefur um 8 tíma til að láta það rætast.

Ég er nú enginn Nostradamus. Af 11 ágiskunum... ég meina spádómum, þá hafa 5 nokkuð ljóslega gengið eftir, ég er ekki svo viss um 2, og allt hitt hefur svikist undan eftirgengni.

Gengur bara betur næst.

fimmtudagur, desember 27, 2007

Dagur 307 ár 4 (dagur 1391, færzla nr. 634):

Einusinni fyrir langa löngu var jólarásin. Hvar er hún nú? Þið hljótið að muna eftir henni: útvarpsrás sem spilaði óviðeigandi músík milli þess sem heimskir krakkar töluðu tómt bull og gerðu símaöt hjá vinum sínum.

Hvar er jólarásin? Hvernig getur maður komist í almennilegt jólaskap án þess að einhver asni spili fyrstu tuttugu sekúndurnar úr einhverju rapp-lagi, og byrji svo að kjafta um hvað vartan á stóru tá vinstri fótar sé orðin stór?

Jamm.

Í staðinn get ég náttúrlega dundað mér við að þjálfa hundinn í að bíta köttinn. Það hefur ekki gengið sem skildi. Jafn illa gengur að fá köttinn til að bíta hundinn. Á morgun get ég drukkið fullt af víni og teipað rakettur við þessi dýr, og sent þau bæði út á sporbaug.

Ég held ég geri það bara.

þriðjudagur, desember 25, 2007

laugardagur, desember 22, 2007

Dagur 302 ár 4 (dagur 1386, færzla nr. 632):

Þá er ég fyrir löngu kominn heim.



Hér er hundurinn:



Hér er kötturinn:



Hér er stór hluti af fjölskildunni. Af þeim sem eru á þessari mynd hér fyrir neðan eru... margir... býst ég við... mættir. Hef ekki nennt að fara yfir það náið. Skilst helst að Illugi ætli að koma einn af þessum dögum. Á næsta ári kannski. Eða eftir 10 ár. Mig minnir einhvernvegin að mamma hafi borið þær fregnir í mig fyrir mörgum tunglum að hann vildi fá far einhverntima, á einhverri dagsetningu, til Eyja. Veit ekki meir. Hann hefði geta hringt beint í Hannes, en nei...



Amma ætlar að vera heima hjá sér yfir Jólin. Hér er mynd af henni síðan seinast:



Hún sveltur ekki þarna í vesturbænum held ég.

Fleiri dýramyndir fyrir ykkur:



Dýr



Dýr



Dýr.



Þá er þetta farið í hund & kött.

miðvikudagur, desember 19, 2007

Dagur 299 ár 4 (dagur 1383, færzla nr. 631):

Lognið er á svo mikilli ferð í eyjum, blandað vatni og hrist, að það er ekki fært þangað örðuvísi en með mannskemmandi farartækjum.



Þessari mynd stal ég á fólskulegan hátt á eyjar.net.

Hvað þá? Nú... eitthvað, býst ég við.

Búinn að ná í jólapakka handa öllum. Flestum, allavega. Hef þá tíma til að pakka inn. Það á eftir að fara í taugarnar á öllum jafnt, býst ég við. Æ, ég veit það ekki. Þarf að byrja að gefa öllum bara kippu af bjór eða eitthvað. Eða rauðvín. Hátíðarskapið svífur svo vel á mann eftir nokkur glös af því.

Kannski ekki þetta rauðvín samt. Ekki nema 12.5%, lofar ekki góðu. Kemur sennilega af köldu svæði þá. Þetta! Með 14%, þá ætti það að koma vel út - eftir svona 2-3 ár.

Hmm... ætti ég að ná mér í pizzu? Fara svo með pizzuna að heilsa upp á ömmu? Kannski...

This site is certified 30% EVIL by the Gematriculator

mánudagur, desember 17, 2007

Dagur 297 ár 4 (dagur 1381, færzla nr. 630):



Ég ætla að kalla þessa mynd: "Úrval í Ljósaperum."

Þessi mynd er innblásin af auglýsingum sem ég hef heyrt í útvarpinu. Það virðist nefnilega vera, að til að gera auglýsingu, þá þarf maður ekki að hafa klárað barnaskólann.

Ég nefni dæmi: "Við höfum mikið úrval í jólaseríum," "hér er mikið úrval í tónlist," osfrv.

Sko, það er mikið úrval í kjötborðinu í Nóatúni, það er úrval í Húsgagnahöllinni, og það er úrval í Bónus. Ég get hinsvegar sagt með fullvissu að það er EKKERT úrval í ljósaperum, fyrir utan þessar sem ég hef mynd af hér að ofan.

Málið er, að á íslensku; hinu framandi og dularfulla tungumáli sem fjölmiðlafólk kann ekki; þá er úrval AF jólaseríum Í þessari og hinni búðinni. Það er úrval af kjöti í Nóatúni, það er úrval af tónlist þarna og á hinum staðnum, og það er úrval af húsgögnum í húsgagnahöllinni.

Það er ekki úrval í kjötinu. Að minnsta kosti ekki mínu kjöti. Og síðasta hefti af Úrvali sem ég sá var frá því 198X, sem myndi ekki gera steikina mjög listaukandi. Það er lágmarkskrafa að það sé nýtt Úrval, sem annar hver maður á landinu er ekki búinn að blaða í.

Úrval í jólaseríum... *grml*

Við hverju er svosem að búast af fólki sem getur ekki talað í 2 mínútur án þess að segja að eitthvað sé varðandi eitthvað annað?

Hvernig verður tungumálið í framtíðinni?

"Þetta er Máni Snær, varðandi nafn, hann er 14 hvað varðar aldur varðandi ár og er í námi varðandi skóla hvað varðar 8. hvað varðar bekk."

Hljómar vel, ekki satt?

Þetta lið segir kannski líka "Ég hlaupti," og "mér langar?"

laugardagur, desember 15, 2007

Dagur 295 ár 4 (dagur 1379, færzla nr. 629):



Þá er að uppfæra þetta, þó ekki sé til annars en að halda í við klámvæðinguna. Það verur mikilvægara með hverjum deginum.

Var að hlusta á þá í útvarpinu áðan, veit ekki hvaða stöð, bylgjan, 9.77, eða RÚV, þar sem var verið að tala um klám. Jú, einn af þeim var víst á móti öllu klámi og strippbúllum á þeirri forsendu að það fólk sem þar vinnur við að afklæðast hafi allt meira og minna verið misnotað í æsku og hefði þess vegna ekki vit fyrir sér.

Það var orðað einhvernvegin þannig, að þessar blessuðu súludömur hefðu allar verið þvingaðar út í þetta. Ekki kom fram hvernig. Ætti að vera auðvelt þar sem þær eiga að vera hugsunarlaus átómöt.

Þetta eru náttúrlega áhugaverðir fordómar í garð súludansara.

En hvað um það, ég fékk það helst út, að ef fólk hefði verið misnotað í æsku, þá hefði það ekkert stjórn á gerðum sínum, og bæri þar af leiðandi ekki ábyrgð á þeim. Væru í raun bara vélar, eða eins og pöddur. Nú, ég hugsa með mér, ef fólk ber ekki ábyrgð á gerðum sínum, orðið meira en 5 ára gamalt, þá eru bara tvær leiðir í stöðunni:

A: það getur farið beint inn á Klepp og verið þar alla tíð, enda er það greinilega öllum til ama úti á götu, eigrandi um stefnulaust þar til einhver platar það til að vinna á bar.

B: Það gæti farið á þing. Þar ber enginn ábyrgð á neinu, þær setningarnar sem þingmenn segja þurfa ekkert að vera málfræðilega rétt upp byggðar né þarf eitt einasta orð sem viðkomandi lætur úr sér skiljast. Fullkomið djobb fyrir einstakling sem hefur ekki vit fyrir sér.

Ég velti líka fyrir mér, hvort fólk sem orðið hefði fyrir títtnefndri misnotkun í æsku hætti þá ekki bara að vera "sentient." Samkvæmt þeirri kenningu þá væri að meinalausu hægt að nota slíkt fólk í allskyns líffærarannsóknir sem væri alveg siðlaust að setja venjulegt, lifandi, ózombifíað fólk í.

Nei, ég held að fólk þurfi að bera ábyrgð á sér og gjörðum sínum sjálft, sama hve misnotað það er. Nauðgun er engin afsökun fyrir óvitahegðun seinna á ævinni. Allir yfir 10 ára aldri eru ekki óvitar lengur, og 18 ára eru lagalega sjálfráða, skilst mér. Sama hvað. Mis-púritanskir hópar úti í bæ geta ekki verið mamma þeirra allra að eilífu.

Hefnd get ég skilið*, en að fletta sig klæðum í mánuð fyrir pening, og kenna einhverju atviki úr æsku um - það er bara kjaftæði.

*Það eru fullkomlega eðlileg og fullkomlega ókristileg** viðbrögð við ofbeldi.
**Kristni er ekkert ofur-eðlileg hegðun.***
***Trúarbrögð, á meðan eðlileg, vinna til að hamla allskyns eðlilegri hegðun, því hún er ekkert alltaf viðeigandi.
****Fólk er ógeðslega heimskt.

miðvikudagur, desember 12, 2007

Dagur 292 ár 4 (dagur 1376, færzla nr. 628):

Ef einhver les þetta, hve mikið veit sá hinn sami um mig? Ekki margt, grunar mig. Ég skrifa nefnilega afar sjaldan það sem drífur á daga mína hérna.

En, samkvæmt teljaranum mínum skoða síðuna allra þjóða kvikyndi. Einn frá Hong Kong núna nýlega. Einn frá bænum "Viljandi" í Eistlandi fyrir einkverjum vikum. Já, það er staður þarna úti sem heitir "Viljandi."

Og hvað eru menn að skoða?



Þessi mynd hefur verið vinsæl undanfarið. En bara núna nýlega. Áður var það BMW Isetta, en það er farið að draga úr áhuga á henni. En það er eitt sem dregur alltaf að sér fólk:

Ford Torino!



Ford Torinu var framleiddur milli 1968 og 1976, og var hugsaður sem svona fínni týpa af Ford Fairlane.



Þetta er Argentínskur Fairlane, þeir voru framleiddir akkúrat svona milli 1968-1981. Argentína er svolítið eins og CCCP þannig.

Torino var hægt að fá með vélum frá 6 sílindra 200 rúmtommu línuvél, til 428 V-8. Árið 1969 var farið að nota 250 vél, í stað þeirrar 200, (ca 4 lítrar). Ég geri ráð fyrir að 6 sílindra línuvélin hafi ekkert eytt neitt meira en hvaða bíll sem er núna, af svipaðri stærð, en 428 týpan jafnaðist meira á við Range Rover eða Land Cruiser - að öllu leiti nema snerpu. Torino nefnilega hreyfist þegar maður stígur á bensíngjöfina.

Árið 1973 kom til greina að fá einn með 460. Það hefur verið... áhugavert. 460 eyðir nefnilega minnst 25 á hundraðið, sama hvað hún dregur með sér, og það er EF það er bein innspýting og annar nútíma útbúnaður. Árið 1973 held ég að við getum nú gleymt því. Bíllinn þá var um það bil 2 tonn og örugglega með 4 hólfa blöndung, Holley eða eitthvað þaðan af verra. Við erum sennilega að tala um 30 minnst. En: þetta fer kvartmíluna á 14 sekúndum án þess að þurfi að breyta neinu.



Þessi minnir svolítið á bílinn sem Mad Max var á. Það er ástæða fyrir því: Ford í ástralíu framleiddi svona bíla, en þótti ameríska týpan svolítið stærri en hún þurfti að vera, svo þeir styttu hana bara um svona 2-3 fet, notuðust við aðeins minni vélar (302) og kölluðu fyrirbærið Ford Falcon/Fairmont.



Reynið bara að leita að 1973 Ford Fairmont/falcon XB á google.



Þið finnið svona bíl mjög fljótlega.

Það er líka nokkuð mikið vesen að finna 1973-6 módel af Ford Tóríno sem er ekki búið að spreyja rauðan og hvítan.



Nóg komið af Ford í dag, held ég.

***

Úr 24 stundum, sem kom inn um lúguna einhverntíma:

24 stundir sögðu frá því í gær að þýzkt fjármálafyrirtæki, VKB, hygðist
bjóða upp á húsnæðislán í evrum hér á landi, á mun lægri vöxtum en innlend
húsnæðislán og án verðtryggingar. Margir fagna vafalaust erlendri samkeppni
á fjármálamarkaðnum hér, en hún hefur verið lítil til þessa.


Já, þar höfum við það. VKB eru komnir í fjármálageriann. Og orðnir þýskir.

sunnudagur, desember 09, 2007

Dagur 289 ár 4 (dagur 1373, færzla nr. 627):

Aftur hefur mér tekist að koma mér á framfæri. Í þetta skifti á einhverri síðu sem birtir barnasögur. Ég veit að þetta eru svolítið öðruvísi barnabókmenntir hjá mér. Svolítið í kaldhæðnari kantinum kannski.

laugardagur, desember 08, 2007

Dagur 288 ár 4 (dagur 1372, færzla nr. 626):

Slökkvið ljósin, komið ykkur vel fyrir og horfið á kvikmynd kvöldsins: Carnival of souls, frá 1962. Enn ein kvikmynd sem enginn hefur séð. Eða heyrt um. Sem er mjög skrýtið.



Bíll aðasöguhetjunnar fellur fram af brú á örugglega 13 kmh.

Þetta er kvikmynd um kvenmann sem lendir í smá óhappi, og er í framhaldi af því elt uppi af púka. Það er betra en það hljómar. Ég get ekki sagt að þetta sé eitthvert episkt meistaratykki, en það virkar, merkilegt nokk.



Það eru 5 mínútur af auglýsingum fyrst - fyrir poppkorn og aðrar slappar kvikmyndir.

Hvað um það, þetta er örugglega flottasti titill á nokkurri B-mynd sem ég hef séð. Kvikmyndin sjálf er svona eins og voðalega langur Twilight-Zone þáttur, og hefur að öllum líkindum ekki kostað mikið meira en einn slíkur í framleiðzlu. Skv. Wikipedia var bödgetið $30.000 - þori ekki að fara með hve rétt það er. IMDB.com segir að kostnaðurinn hafi verið $17.000. Á sínum tíma nægði það fyrir filmu, nú, og þessum forláta bíl þarna og tjóninu sem hann olli á brúnni.

Ekki nema 78 mínútur að lengd, en samt eru sum atriðin eins og þau seu viljandi löng. Samt er þetta ekki versta kvikmynd í heimi. Langt frá því. Það þarf til dæmis ekki að drekka neina bjóra fyrst eins og er stundum nauðsynlegt. Ég færi ekki að bjóða upp á neitt svoleiðis, hvað haldiði að ég sé?



Búú!

fimmtudagur, desember 06, 2007

Dagur 286 ár 4 (dagur 1370, færzla nr. 625):

Þessi náungi er núna uppáhaldslistamaðurinn minn. Hvers vegna? Jú, hann hefur nú framkvæmt gjörning sem hefur haft meiri áhrif en bara að láta almenning í þessu eina landi, og bara þann part af almenningnum sem veit af sýningunni á safninu, halda að það sé verið að hafa þá að fífli.

Neibb. Hann hafði þá að fífli í staðinn. Þeir þurfa ekki að halda neitt um það. Og ég fatta þetta, og ég get bent á heila þjóð og hlegið að þeim. Voru þeir hræddir við ÞETTA?

En hvað gerir maðurinn næst? Hvað toppar þetta? Ja, hann má búast við 4 ára fangelsi fyrir þetta, svo næst gæti hann til dæmis´búið til eftirlýkingu af Hiroshima bombunni, og skrifað á hana: "þetta er ekki kjarnorkusprengja", fyrir það fær hann minnst 10 ára dóm, svo þegar hann sleppur úr djeilinu getur hann sett upp dularfullt verk sem hann getur kallað: "þetta er ekki dómsdagsvél," og verið dæmdur í ævilangt fangelsi.

Já. Miðað við viðbrögðin við þessu hjá honum, mun fólk byrja að deyja í stórum stíl, bæði af hjartabilunum og sjálfsmorðum, af ótta við hina ógnvænlegu dómsdagsvél. Sem væri náttúrlega bara töff.

Þetta ameríkulið... Búið að tapa fyrir ímynduðum hryðjuverkamönnum.

***

Hvaða þörf er þetta hjá fólki við að vera hrætt við allan fjandann annars? Til dæmir miðborg RKV? Nú hef ég heyrt í mörgum íbúum 101-107, og enginn þeirra virðist óttast borgina, sama hvaða tími sólarhrings er. Það er jafnvel best að vera á ferli á nóttunni, þá fær maður að vera í friði, og getur gengið yfir götur án þess að flautað sé á mann.

Hinsvegar er fullt af fólki skíthrætt við RKV, og sérstaklega þeir sem aldrei koma þangað - svo ég nefni dæmi, þá eru vistmenn á elliheimilinu á Egilsstöðum þeir á landinu sem eru hræddastir við að vera einir á ferð í miðbæ RKV. Það var reynt að sannreyna þetta með því að spyrja fólk í Kína, en það var fallið frá því þegar tíundi kínverjinn í röð fölnaði upp, varð gráhærður og dó með það sama þegar orðasambandið "Miðbær Reykjavíkur" var nefnt.

***

Hef verið að heyra auglýsingu undanfarið þar sem mér er tilkynnt að visst fyrirtæki niðri í bæ eigi "mikið úrval í jólaseríum". Úrval af hverju eru þeir með í þessum jólaseríum? Ekki getur það verið umfangsmikið, fyrst það kemst fyrir inni í jólaseríu.

Sko, þegar maður er að auglýsa eitthvað, á maður að segja hvað það er. Til dæmis: "við eigum mikið úrval af gullfiskum í jólaseríum".

Úrval í jólaseríum? Kannski eru þeir að meina tímaritið úrval? Er það ekki hætt fyrir löngu? Ég hef ekki séð það.

þriðjudagur, desember 04, 2007

Dagur 284 ár 4 (dagur 1368, færzla nr. 624):

"Ert þú byrjaður í þessu?" spurði einhver þegar ég var að afhenda pakka áðan. Ég þekkti ekki manninn, hafði aldrei séð hann áður. Það virðist vera að illi tvífarinn minn hafi hinsvegar verið á ferðinni.

Það hefur sést til þess náunga hér og þar. Ég var tvisvar inntur eftir ferðum mínum þegar ég vann á pallinum á Flytjanda út af þessum náunga. Hann fór til dæmis í Tívolí einusinni, og svo skilst mér hann vinni á einhverri skrifstofu, sem er að mig minnir staðsett við hliðina á Fíladelfíu.

Eða kannski eru það nokkrir? En ég held varla, því þá aukast líkurnar nokkuð að ég hafi hitt einn af þeim. Það er líka einkennilegt til þess að hugsa að þarna úti sé fjöldinn allur af mönnum sem líta út eins og ég, nógu mjög svo til að menn ávarpi mig sem slíkan í návígi.

Eða kannski er það bara þessi eini.

Nú vona ég innilega að þessir tvífarar mínir geri ekkert mikið af sér, svo mér verði ekki kennt um öll ósköpin. Það ætti ekki að vera allt of mikið vesen fyrir mig að finna hann. Ég lít bara í spegil, og virði mig fyrir mér, fer svo að leita að öðrum eins.

Veit ekki hvernig það mun ganga.

laugardagur, desember 01, 2007

Dagur 281 ár 4 (dagur 1365, færzla nr. 623):

Í gær var mér boðið upp á hlaðborð og vín. Svo ég fékk mér ýmislegt. Lax og skinku og hangikjöt. Og laufabrauð og ristað brauð. Og skolaði því niður með svona lítra af rauðvíni.

Ég fékk mér mikið af skinkunni. Það er nefnilega gott að fá sér skinku við þynnku. Og kjöt almennt.

Og svo vaknaði ég fyrir allar aldir til að vinna. Ég á alltaf mjög auðvelt með að vakna fyrir allar aldir eftir mikla drykkju. Sem var gott, því þá hafði ég tíma til að búa til eggjaköku - sem er nauðsynlegt að gera stundum.