laugardagur, nóvember 15, 2008

Dagur 256 ár 4 (dagur 1716, færzla nr. 734):

það koma alltaf fleiri og fleiri niður á Austurvöll um hverja helgi. Svo leggur þetta lið bara uppi á kanti fyrir framan kolaportið, svo það er varla akandi framhjá öllu saman.

Það er náttúrlega ekki verið að mótmæla því að einhverju náttúrufyrirbæri sem enginn sér eða mun nokkurntíma nenna að fara að skoða sé breytt í stöðuvatn... sem ekkert margir fari að skoða svosem heldur.

***

Systur mínar hafa miklar áhyggjur. Þær eru víst að sligast undan jólagjöfunum. Lausnin: að það verði sett þak á kostnaðinn, og hver og einn gefi bara eina gjöf, og fái bara eina.

Ekki vandamál sem hefur herjað á mig, satt að segja. Ég hef hvorki lagt mikla hugsun eða peninga í þetta undanfarið. Gef bara öllum nammi. Allir eru alltaf sáttir við að fá nammi. Og nú á að koma einhverjum vandræðum yfir á mig.

Þær eru vandræðalegar, þessar systur.

***

Missteig mig um daginn. það var nokkuð ógurlegt, enda var það bensínfóturinn, og ég þarf eiginlega að nota hann stundum.

Svo bólgnaði þetta ógurlega daginn eftir, varð allt grænleytt og fjólublátt, svo mjög að það varð erfitt að komast í skóinn. Að vísu verkjaði minna fyrir vikið.

Á þriðja degi datt hann af. Það var smá maus, en ekkert sem ekki var hægt að laga með smá teipi. Þann daginn gat ég svo svarið að annar fóturinn var ögn styttri en hinn...

Nú er þetta allt að komast í lag. Það er bara þessi fjólubláa rönd frá litlu tá að hæl, og önnur styttri hinumegin. Mjög tilkomumikið og áberandi. Af hverju finn ég ekki meira fyrir þessu?

Verður orðið fínt í næstu viku.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli