fimmtudagur, júlí 20, 2006

Dagur 134 ár 3 (dagur 864, færzla nr. 430):

Ég bókstaflega fékk þetta uppí hendurnar áðan:

Auglýst hefur verið eftir skriflegum ábendingum og athugasemdum við fyrirhugaðar breytingar á Aðalskipulagi Reykjavíkur. Breytingarnar fela í sér breytta "Landnotkun á austursvæði Vatnsmýrar "

Fyrirhugaðar breytingar eiga að breyta svæðinu suður af Loftleiðahótelinu sem á að breytast úr svæði fyrir blandaða byggð eftir 2024 í miðsvæði (M5b) sem komi til uppbyggingar á skipulagstímabilinu. Svæðið vestur af hótelinu og suður með Öskjuhlíð sem er nú merkt sem miðsvæði , stofnbraut og og opið svæði til sérstakra nota verði merkt sem blanda miðsvæðis og opins svæðis til sérstakra nota, sem komi til uppbyggingar á skipulagstímabilinu. Á umræddum svæðum er gert ráð fyrir stofnunum og atvinnuhúsnæði vegna uppbyggingar Háskólans í Reykjavík, rannsóknastofnana og annarra þekkingarfyrirtækja, alls 115.000 m2 auk 35.000 m2 íbúðarhúsnæði fyrir stúdenta. Ennfremur er lagt til að Loftleiðasvæðið og svæðið þar norður af verði skilgreint í heild sem miðsvæði (M5a). Á því svæði er gert ráð fyrir alhliða samgöngumiðstöð og starfsemi tengd flugrekstri auk blandaðrar starfsemi sem samræmist landnotkun á miðsvæðum( s.s íbúðarbyggingar). Einnig á að þrengja að flugvellinum með byggingu
göngubrúa og stofnstíga vegna Öskjuhlíðargangna.

Tillagan liggur frammi í upplýsingaskála skipulags og byggingasviðs í Borgartúni 3 1. hæð til 24.júlí 2006.

Senda skal mótmæli inn skriflega og skilmerkilega undirrituð til skipulag@rvk.is fyrir 24.júlí 2006.


Það er meira, en ég kem ekki að því hér. En hvað um það:

Hvað er Miðsvæði? Ég veit það ekki. Ég hef þó heyrt um hluti sem eru miðsvæðis. Að til væri sérstakt miðsvæði, það vissi ég ekki. Það er eins og að til væri einhversstaður. Það verður kannski næst, en mig grunar þó að "grennd" sé næst... nei, bíddu, Grennd er komin. Það fara nefnilega allir hlutir í "grenndarkynningu" núorðið, með ærnum tilkostnaði og veseni.

Og hvernig dettur þessum mönnum í hug að skella skólabyggingum við hliðina á flugvelli? Stafar ekki af því nokkur truflun? Væri ekki betra að reisa þennan skóla annarsstaðar? Til dæmis einhversstaðar nærri höfuðstöðvum Orkaveitunnar? Eða orkuveitunnar. Fer eftir hvernig manni lýst á húsnæðið þá og þá stundina.

Ég tek líka eftir orðinu "stofnbraut". Það er enn eitt merki skipulagsslyss, því að í öllum siðmenntuðum löndum eru "stofnbrautir" hafðar á milli borga og bæja, en ekki á milli hverfa eins og hér tíðkast. Stofnbraut ætti til dæmis að lyggja til Akureyrar. Þangað liggur hinsvegar að því er virðist fyrirbæri sem á annars góðri íslensku nefnist "heimkeyrzla".

Já, það er athyglisvert að á þeim einu vegaköflum á landinu þar sem vegirnir eru gerðir fyrir alvöru hraða skuli umferðarljósum með sínum illu rauðu augum vera skellt niður með óreglulegu millibili.

Oj. Það er athyglisvert að það er sama fólkið sem vill flugvöllinn í burtu og lét "laga" hringbrautina.

Svei. Að lokum legg ég til að höfuðborgin verði flutt til Egilsstaða. (Þið á Egilsstöðum: engar stofnbrautir, enga botnlanga, og bara einstefnu í eina átt í einu takk. Gjörið svo og þið munuð eigi kveljast.)

Amen

Engin ummæli:

Skrifa ummæli