mánudagur, janúar 01, 2007

Dagur 298 ár 3 (dagur 1028, færzla nr. 501):

Nýtt ár. Þetta er nú það. Hef litla skoðun á því enn, það er svo lítið komið af því. Gamla árið var svona la-la. Það er eins gott að þetta ár verði ekki eins, heldur betra.

Ég verð illa svikinn ef Fidel Castro hrekkur ekki uppaf í ár. Hvað meira gerist? Ó já, það verða kosningar. Þær munu fara svona: D fær 40%, S fær 25%, VG fær 10%, F fær 7-8%, B fær 10% og þar með meirihluta atkvæða - auðvitað, afgangurinn skilar auðu.

Lát oss sjá, hverju meira sniðugu get ég spáð? Hmm... Það verður jarðskjálfti í Kalíforníu aftur. Eitthvað hrynur, en þar sem Kalífornía er nú staðsett í hinum vestræna heimi nær tala látinna varla 3 stöfum.

Það eru vissir fastar sem munu aldrei breytast: það heldur áfram að vera ólga í mið-austurlöndum, listamenn í 101 halda áfram að vera ótrúlega ruglað lið og fólk í fréttum mun halda áfram að vera illa máli farnir vitleysingar.

Greiningadeild ríkislögreglustjóra mun ítrekað verða sér til skammar á komandi árum, en mun ekki verða lögð niður fyrir vikið. Lögreglan verður verr og verr liðin eftir því sem hún sekkur dýpra í fasisma, en eftir því sem hún sekkur dýpra í það fen nær hún fleyri dópdílerum og neytendum, svo og öðrum aðilum sem ekki töldust glæpamenn í fyrra en eru það nú.

Ríkið mun klúðra einhverju. Nei, bíddu, það hefði átt að vera sem fasti - hvenær klúrar ríkið EKKI einhverju? Þegar þeir gera eitthvað rétt er það birtingarmynd einhvers klúðurs, því takmarkið var að gera eitthvað allt annað. Allt sem þeir gera virðist nefnilega hafa akkúrat öfugar afleiðingar.

Gæjinn sem rann á bananahýði og kveikti því óvart í á 11 stöðum í eyjum fyrir algjöra slysni og óvitahátt næst, en verður sleppt aftur að lokinni yfirheyrzlu. Þá rennur hann til í hálku og kveikir óvart og fyrir einbera slysni í á tveimur stöðum í viðbót.

Færri munu deyja í umferðinni í ár, en til að vega upp á móti því munu fleyri slasast, því vegna hraðatakmarkana munu gangandi vegfarendur gera sig heimakomna úti á miðri götu í meira mæli en áður.

Það fer að gjósa einhversstaðar. Ég er viss um það. Í Heklu eða einhversstaðar. Það hefur ekki komið gos svo lengi.

Og að lokum eitthvað furðulegt um frægt fólk í útlöndum:

Daginn sem Fidel deyr mun Britney Spears fá loftstein í hausinn og farast. Viku seinna mun verða ljóst svo ekki verður um villst að það er örugglega hún eftir að sletturnar hafa verið settar í DNA rannsókn. Tennur sem sagt eru að séu úr henni munu seljast á E-bay fyrir of fjár í framhaldi.

Þetta er komið gott núna. Skoðum þetta að ári.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli