þriðjudagur, júní 12, 2007

Dagur 97 ár 4 (dagur 1192, færzla nr. 556):

Samkvæmt fréttum um daginn voru allir sem óku Bústaðaveginn um gatnamót Flugvallarvegar um helgina, um 400 manns, sektaðir fyrir ólöglegan ökuhraða. Meðalhraðinn var 77. Sem er náttúrlega bara escape velocity. Sá hraðskreiðasti var víst á 107, sem er mjög nálægt ljóshraða skilst mér, og að sögn hraðar en jafnvel sumar orustuþotur komast. Hinir sem lentu á ljósum sluppu.

Ég velti fyrir mér hvaða skilaboðum þeir eru raunverulega að koma á framfæri. Skoðum þetta aðeins:

1: það er í gangi herferð til að lækka ökuhraðann með þeim formerkjum að hraðinn valdi dauða 200 manns á hverju ári, til eða frá.
2: Samkvæmt herferðinni veldur ekkert annað veldur dauða fólks í umferðinni en "of mikill" ökuhraði.
3: meira en 500 manns aka Bústaðaveginn um hverja helgi, sennilega um 1500, þar sem mjög margir tefjast vegan ljósa, og geta því ekki verið á þeim ógnvænlega 77 kmh sem drepur hraðar en steðji í hausinn.
4: allir sem ekki lenda á ljósum eru að því er virðist undantekningalaust á yfir hámarkshraða, sem er 60. (Vissuði það?)
5: Allt árið eru um 50 helgar. það gerir 25.000 ferðir á kolólöglegum hraða um þessi gatnamót. Hvenær var seinast dauðsfall á Bústaðaveginum? Fréttnæmt slys? Hmm... leitum hjá mbl... Ekki rétt gatnamót... hraða ekki um að kenni sem slíkum, 3 bíla óhapp, vegna umferðarteppu. Það verða óhöpp, augljóslega, en rekjanleg eingöngu til hraða? Nei.
Undanfarið ár hefur semsagt enginn farist eða lent í alvarlegu slysi á þessum gatnamótum. Eða undanfarin 4 ár, þegar ég hugsa um það. Sem gerir 100.000 ferðir á ólöglegum hraða, framkvæmdar bæði af el mongó og góðum ökumönnum.
6: allt þetta fólk, sem hefur aldrei lent í slysi þarna, eða þekkir einhvern sem hefur lent í slíku, getur ekki í raun og veru kennt akstri á ólöglegum hraða um neitt annað en sekt núna seinustu helgi. Það hefur ekki einusinni hugsað út í þetta. Reyndar stangast reynzlan af þessari brekku á við áróðurinn, sem segir að allir sem aki á ólöglegum hraða muni deyja á hræðilega hátt, og fara til helvítis.

Allt í lagi. Þeir segja að hraði drepi, alveg sérstaklega ólöglegur hraði. En nú er það svo að allir virðast aka um á hinum ógnvænlega hraða sem 77 kmh er, og verður ekki meint af. Reyndar verða fleyri slys þegar hægist á umferð.

Sem þýðir að annaðhvort lýgur umferðarráð, eða raunveruleikinn sem slíkur er ekki til, heldur tálsýn, og í raun voru allir á 30 kmh, glaðir litlir hamstrar á bleikum skýjum, en ekki dauðir eftir að hafa þrykkt í gegnum steinvegriðið á brúnni yfir Hringbrautina á 80 kmh og oltið logandi brakinu sínu fjölmargar veltur alla leið upp á umferðarmiðstöð.

Og hvað gerist ef maður segir alltaf eitthvað sem stangast á við reynzlu? Ég get ekki sagt að hægt sé að grafa meira undan trúverðugleika ríkisins, en samt virðist alltaf fullt af fólki éta upp allt sem það segir.

Eða trúiði enn að kaffi láti ykkur hætta að vaxa?

Í raun er bara verið að segja aftur við fólk: Við erum Ríkið. Við viljum peningana ykkar. Við viljum að þið akið mjög hægt. Bara af því.

Hvað dettur þeim í hug næst? Banna smjör? Það væri bara rökrétt framhald, því ef 1/120.000 farast í umferðarslysum vegna ölvunar, svefnleysis, eigin heimsku eða veðurs, og nota má það til að banna fólki að aka yfir 60 á hraðbraut sem er af einhverjum orsökum staðsett inni í miðri borg, þá meikar sens að banna smjör vegna þess að það er hrein fita, og fita finnst oft innan á æðum fólks sem látist hefur úr hjartaáföllum, og miklu fleyri fá hjartaáfall á hverju ári en farast í öllum slysum samanlagt. Eða það má banna öllum að eiga reipi, því 20-50 manns hengja sig á hverju ári. Eða, hey! Bönnum áfengi! Snilld! Komum á dauðarefsingu fyrir þá sem smygla fíkniefnum til landsins! Eða skikkum alla í SÁÁ núna, sem forvörn.

Allt sem fólk getur meitt sig á verður bannað. Engar hurðir leyfðar! Allar sundlaugar skuli vera nógu grunnar til að 5 ára barna geti staðið með höfuðið uppúr svo það drukkni ekki. Hvern vetur verði sjúkrabíll til taks í hverju hverfi ef vera skyldi að einhver rynni til í hálku. Hvort sem snjóar eða ekki. Möguleikarnir eru endalausir.

*PS: á síðasta ári, af 10 síðustu banaslysunum orsakaðist EKKERT af "of hröðum" akstri. Ég var að fylgjast með því sérstaklega. Nefndu eitt ef þú ert ósammála, og rökstyddu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli