föstudagur, nóvember 30, 2007

Dagur 280 ár 4 (dagur 1364, færzla nr. 622):

Jæja, þá er ég búinn að hripa niður enn eitt bókmenntastórvirkið. Alveg hundraðogfullt af blaðsíðum. Datt í hug í þetta skiftið að skrifa glæpasögu, með morðingja og löggu. Allt í lagi... það gekk...

Það eru yfir 50 morð. Svo ég er með þann part alveg dekkaðan. Verra er að löggan í sögunni eiginlega nennir ekki að leysa málið allan tímann, vill miklu frekar gramsa í skjölum, og morðinginn er hundleiðinlegur, situr bara og drekkur kaffi með vinnufélögunum milli þess sem hann laumast til að drepa einhvern af og til. Þar kemur titilpersónan inn í.

Svo er plottið flóknara en andskotinn. Ég ætla að salta þetta yfir Jól og kíkja á þetta aftur þá, til að sjá hvort það er ekki örugglega eins vitrænt og ég hélt. Mig minnir endilega að það falli allt saman á endanum. Þetta eru jú bara þessar 3 persónur, og ein þeirra gerir ekkert annað en að sitja og drekka kaffi. Jú, og drepa fólk af handahófi eftir hentugleikum.

Já. Með vel yfir 50 morð ætti sagan að höfða til 14 ára og eldri. Ég er ekki viss um að útgefendur verði sammála mér. Eh... fyrirfram gefnar hugmyndir um hvað 14 ára vilja. Á hinn bóginn gæti einhver munað hvað hann hugsaði þegar hann var 14 ára.

Ég þarf alltaf að hugsa í smá stund til að átta mig á því að ég er kominn aðeins yfir tvítugt. Þarf að muna ártalið, og reikna þetta allt út.

14 ára vilja örugglega meira blóð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli