fimmtudagur, apríl 27, 2006

Dagur 50 ár 3 (dagur 780, færzla nr. 403):

Hey, nú á að koma annað fjölmiðlafrumvarp. Alveg eins og hið fyrra. Það má enginn eiga meira en 25% í fjölmiðli. Sem þýðir, að ef Jónas úti í bæ ætlar að setja upp sjónvarpsstöð í framtíðinni, má hann það ekki nema hann geti fengið 3 aðra gaura með sér til að eiga hin 75 prósentin.

Og þar sem RÚV er ekki fjölmiðill, þá má einn aðili eiga RÚV. Hmm. Af hverju? Hvaða raunverulega rök hníga að þessu? Nú er RÚV ekkert spes, alveg jafn mikið fyrirtæki og öll hin, nema hvað það er rekið af mafíunni... ég meina ríkinu. Þetta verður gróft. Ég sé kærur til alþjóðadómstóla í framtíðinni.

***

Samsærið gegn flugvellinum heldur enn áfram. Hvaða jólasveinar standa að baki þessu? Það hljóta að vera hinir háværu kaffihúsastundandi íbúar 101. Allir aðrir virðast vera á móti því að flugvöllurinn fari: fólk ofanaf landi af því að það er svo stutt úr Reykjavík til Reykjavíkur, fólk af Álftanesi og úr Kópavogi vill ekki borga tugi milljarða bara til að fá flugumferð yfir hausinn á sér, og ég geri ekki ráð fyrir að fólk í breiðholtinu vilji í alvöru punga út pening, púntur.

Og nú er kominn nýr frasi í málið: flugtæknilega mögulegt. Það er víst flugtæknilega mögulegt að skella vellinum út í sjó. Það er alveg rétt. Það er á sama hátt alveg flugtæknilega mögulegt að búa til flugvöll ofaná húsi verzlunarinnar, og sennilega alveg jafn dýrt. Eins væri flugtæknilega mögulegt að skella vellinum upp á Esjuna, eða hafa hann á Grænlandi. Það gengur betur að fljúga þar sem er kalt, þið vitið.

***

Þetta tvennt eru dæmi um hluti sem pólitíkusar hafa bitið í sig. Alveg eins og óvinu okkar skólamanna, Þorgerður Katrín, hefur bitið í sig að hækka eigi innritunargjöldin. Já.

Nei, við menntamenn getum ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn. Þar er nefnilega óvinur okkar. Við ráðum engu um hvort hún er inni eða úti, svo við verðum bara að gleyma þessu. Og er það er ekki nóg, þá býr þar líka kellingin á gullkamrinum, og fullt af liði sem hefur verið búið til í tilraunaglösum til þess að vinna við hryðjuv... stjórnmál.

Talandi um hryðjuverk: Björn Bjarna er í sjálfstæðisflokknum. Hann styður aukið öryggi. Öryggi þýðir að við megum búast við að símarnir okkar verði hleraðir, við verðum gegnumlýst á flugvöllum og gæjarnir í sprengjuleit munu stela af okkur mynjagripum frá útlöndum. Það er öryggi.

Samfylkingin fékk úr tilraunaglösunum það sem sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki. Samt er enginn sjáanlegur né heyranlegur munur á þeim milli flokka. Kannski voru tilraunaglösin ekki í réttum lit eða eitthvað. Það sem helst ætti að fæla fólk frá að kjósa samfylkinguna er hvernig þeim tókst til með borgina: síðustu 2 borgarstjórarnir voru ekki kosnir af neinum. Afar lýðræðislegt.

Framsókn. 15% fylgi. Öll völdin. Afar lýðræðislegt.

VG: Einusinni hét þetta Kommúnistaflokkur íslands. Svo hætti það að hljóma vel, og hét þá Alþýðuflokkur. Svo hætti það að hljóma vel. Svo hrundi Sovétið, og þá var enginn lengur til að segja þeim fyrir verkum, svo þeir hafa verið hjakkandi í sama bullinu síðan 1990.

Frjálslyndir. Hafa enn ekki komist til valda, og hafa því ekki náð að skemma neitt. Helstu skandalar eru þeir að einn þingmaður þeirra sagði einusinni stutta furðusögu um Spitfire í pontu. Mæltist það illa fyrir. Annar er sá að einn þeirra, gott ef ekki sá sami, var nappaður fyrir að hafa viðurkennt að hafa hent fiski til að vera ekki nappaður fyrir að veiða utan kvóta.

Ah... pólitík. Hvort viljið heldur vera skotin eða stungin?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli