föstudagur, mars 12, 2004

dagur 8:

Dreymdi að ég væri kominn til helvítis. Helvíti leit út ekki ósvipað nýja hrauni, nema það var enginn mosi, og stórir pollar af glóandi hrauni lágu á víð og dreyf. Í helvíti var allt fullt af góðu fólki, svo ég nefni fáeina af handahófi: Ósama, Díana prinsessa, Bill Clinton og fleiri og fl.

Semsagt, ég var þarna í góðra vina hópi, og það voru púkar og hvaðeina. En ég vissi eiginlega ekki hvað ég átti af mér að gera, svo ég vatt mér að einum pókanum, og sagði við hann að ég vildi hitta Satan sjálfan, drottnara myrkra-aflanna og vin litla mannsins. Púkinn sagði mér þá að hann væri í fríi á Benidorm, og væri ekki væntanlegur aftur fyrr en eftir viku. Andskotans!

Jæja, ég rölti af stað, hugsandi sem svo að ekkert lægi nú á, ég hefði eilífðina víst fyrir mér. Ég var einmitt að dást að loftræstikerfinu, þegar ég kom auga á Gunnar í Krossinum og Einar á Ómega, þar sem þeir stóðu og voru að fylgjast með hópi framliðinna páfa dansa á glóandi kolum þar skammt frá. Ég vatt mér auðvitað uppað þeim og spurði þá hvernig þeir fíluðu sig í helvíti.

Þeir vildu ekkert kannast við að vera í helvíti, sögðust báðir fullvissir um að þeir væru á himnum, báðir tveir, hafandi verið svo góðir, dygðum prýddir menn alla ævi.

Ég benti þeim á alla dansandi páfana, og spurði þá hvar annarsstaðar en í helvíti slíka hluti væri að sjá.

"Þetta eru engir páfar," sagði Gunnar, "þetta eru auðvitað hinir himnesku herskarar, á djamminu."

Mér leið öllu betur eftir að Gunnar í Krossinum hafði útskýrt þetta svo vel fyrir mér, að ég væri í raun á himnum. Þó var ekki laust við að það læddist að mér smá efi: Það var jú hópur af páfum þarna, dansandi á logandi kolum, og þeir líktust bara ekki neinum himneskum herskörum.

Ég vatt mér uppað öðrum púka, og spurði hann hvort ég gæti einhversstaðar fengið mér hamborgara. Púkinn benti mér á að til þess yrði ég að vakna, og keyra á Jolla. Þar væru mjög góðir hamborgarar. Í víti yrðu engir hamborgarar fyrr en þeir þýddu Disney. Það var vegna veðmáls sem Satan gerði við Jóakim Aðalönd. En hann sagði mér líka, að beztu hamborgararnir fengjust í friðarhafnarskálanum... En ég vissi sem var, að þaðan er langur vegur frá mínum svefnstað. Jolli yrði að duga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli