föstudagur, mars 03, 2006

Dagur 360 ár 2 (dagur 725, færzla nr. 376):

Amma er mjög á móti álverum. Henni finnst álverin ljót, þess vegna er hún á móti þeim. Ég geri mér grein fyrir að það er ein ástæða til að vera á móti hlutum, en mér finnst það ekki alveg fullnægjandi ástæða.

Betri ástæða er þessi:

Þeir sem byggja álver á Íslandi fá styrk til þess frá ríkinu. Það þýðir, að það er miklu praktískara að skella upp álveri en einhverju öðru peningaframleiðzlubatteríi. Sem veldur því að í stað fjölbreytni verðir einhæfni, alveg eins og í denn þegar menn annaðhvort unnu í síld eða voru atvinnulausir, eða þar áður þegar menn voru annaðhvort bændur eða þrælar... ég meina vinnumenn.

Afhverju má ekki skella up álplötuverksmiðju við hlið einhvers af þessum álverum? Eða álfelguverksmiðju? Eða áldósaverksmiðju? Hvað með hergagnaverksmiðju?

Mig grunar að það séu meiri peningar í álfelgum per tonn en í hráefninu áli.

En slík batterí fá ekki fyrirgreiðzlu frá ríkinu, en virðast vera bæld niður í staðinn.

Og í Álver þarf mannskap. Ekki endilega menntaðan mannskap, heldur bara fjölda fólks. Þarf. Sem þýðir aftur að menn þurfa annað hvort að vinna í álveri eða fara í skóla, og það er betra fyrir ríkið að menn vinni í álveri. Það er kannski þess vegna sem þeir vilja koma á skólagjöldum. Til að fæla fólk í álverin?

Annað hvort það, eða við getum flutt inn fólk frá Póllandi.

Þannig að þið sjáið það, álver gæti verið afar falleg bygging, til mikils listræns sóma, en það eru hinsvegar skuggahliðar á málinu sem fá mann til að hugsa.

Já. Amma er á móti álveri vegna þess að henni finnst álver ljót. Hvað ef henni þætti álver falleg?

Eitt og eitt álver er bara af hinu góða, en gætuði aðeins...

***

Ég las í fréttablaðinu að verið væri að mótmæla því að Bauhaus fengi lóð í Mosó. Seinast varð Bauhaus að víkja fyrir Byko. Minnir örlítið á Irving málið. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því, greyin, að olíufélögin og ríkið eru eitt. Atlantsolía er í svolítið keimlíkum vandræðum. Heyrði athyglisverða sögu af því um daginn. Segi ykkur hana kannski einhverntíma, ef þið eruð góð.

Bissness innan Íslands er á sandkassastiginu. Menn hugsa um að einoka fyrst, græða svo. Það verður að gera nýjum aðilum erfitt að koma inn, hugsa þeir, svo þeir skemmi ekki leikinn. Menn nenna ekki að hugsa. Mig grunar að þetta sé einsog í Cool Runnings, þegar þeir ætluðu að banna Jamaika að taka þátt bara af því.

Sem minnir mig á að fjölmiðlafrumvarpið er að koma aftur. Það miðar einmitt að því að gera nýjum mönnum erfiðara en ella að komast inn á markaðinn. Ég var að vona að það hyrfi með Davíð, en svo er víst ekki. Strax eftir kosningar mun það fara í lög. Ekkert meira Radíó Reykjavík. Jólarásin er í hættu.

Hvað dettur þeim í hug næst?

En aftur að lóðum: ég man þegar lóð kostaði 5 milljónir, ekki 20. Ég man þegar einbýlishús kostaði 20 milljónir. Nú telst fólk heppið ef kústaskápurinn er svo ódýr. Hvað er fólk eiginlega með í laun?

Fyrir 20 milljónir vil ég ekkert minna en 2 hæðir, tvöfaldan bílskúr og gosbrunn, með sérherbergi fyrir kellinguna í svarta og hvíta gallanum með fjaðrakústinn.

Amen.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli