fimmtudagur, mars 16, 2006

Drumbur Skipstjórans: Dagur 8 ár 3 (dagur 738, færzla nr. 383):

Herinn er að fara. En samt ekki. Þeir ætla nefnilega bara að draga saman umsvif sín á vellinum. Það er ekki það sama og að fara, en það er nógu slæmt, því þyrlurnar fara, og við það að missa þær þarf ríkið allt í einu að fara að passa uppá að okkar eigin þyrlur séu í lagi. Það kostar víst jafn mikið og að reka sendiráð í Kambódíu að reka þessar þyrlur.

Þegar eg heyrði fréttirnar í gær, virtist mér að þeir væru allir mjög undrandi á þessu, þingmenn. Var ekki búið að segja þeim frá þessu? Ég er hissa á að þeir skuli vera hissa. Voru þeir ekkert að hlusta þegar kaninn talaði við þá? Sátu þeir kannski bara og sögðu einhver orð af handahófi, svone eins og amma? Mig grunar það.

Og hvað með allt þetta fjas um öryggi landsins? Allt í lagi, það lá allt í þyrlunum. Þess utan er ansi hæpið að gerð verði innrás. Ég meina: hvaðan? Rússarnir koma ekki lengur. Hverjir þá? Færeyingar? Norðmenn?

En ég, líkt og aðrir kjósendur, ræð víst litlu þegar að meintu óöryggi landsins kemur. Ef fíflin vilja her, þá verður stofnaður her. En ég vil gera mitt til að stöðva það:

Það kostar meira en sendiráð í Istanbúl að hafa her. Hvort metiði meira?

Öryggi landsins... hryðjuverkaógn. Plöh. Hryðjuverkamennirnir hafa unnið, og við vorum ekki einusinni að keppa. Það þarf ekki að gegnumlýsa okkur. Það gerir ekkert til þó einn og einn maður rölti niður í bæ vopnaður hníf og gaffli. Áramótabrennur eru ekki ógn við lýðræðið, né heldur flugeldar.

Það er ekki hættulegt að ganga um í miðbæ Reykjavíkur. Að minnsta kosti hef ég aldrei verið myrtur þar. Reyndar man ég ekki til þess að ég hafi nokkuð verið myrtur.

Sem færir mig aftur að öðru, skildu máli: hvað er eiginlega með víkingasveitina? Sá brandari er bara ekkert fyndinn lengur. Þið megið leggja hana niður núna. Ég er viss um að þið getið fjármagnað eins og eitt feitt embætti einhverstaðar fyrir peninginn sem sparast. Þið getið selt vopnin í Veiðivon á eftir. 9 mm. Gott á hreindýr.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli