laugardagur, desember 16, 2006

Dagur 282 ár 3 (dagur 1012, færzla nr. 497):

Þetta er mjög morbid frétt. 30 dauðir á árinu í bílslysum. Hvernig var það, var ekki í gangi eitthvert átak? Það er eins og mig mynni það... Hmm... "tökum heppnina úr umferð" sögðu þeir... það virðist hafa gengið eftir. Afar óheppilegt.

Annað athyglisvert í hinni eilífu baráttu gegn frelsinu, hraða er kennt um allt sem aflaga fer. Einhver keyrir útaf: hann hlýtur að hafa farið of hratt.

Sem fer ekki heim og saman við þá staðreynd að aðeins 20% af öllum slysum verða vegna hraðaksturs - og þau verða í raun og veru vegna reynzluleysis eða of mikils mats á eigin ágæti. Afgangurinn er af öðrum orsökum:

Einn fauk, einn var í torfærum, einn ók á steypuklump sem verktaki hafði sett út á miðjan veg í óljósum tilgangi, einn ók í sjóinn að því er virðis viljandi, í eitt skifti stökk hestur út á veg í myrkri, einn var á gangi úti á miðri götu, líka í myrkri, einn var að taka frammúr einhverjum sem var á löglegum hraða - þá dóu reyndar tveir - og svo framvegis.

Svo á að fara að setja hraðalimiter í pallbíla. Pallbílar líta allir eins út. Tekur einhver eftir því þó einn "bili" óvart? Eigandi bílsins rennur á bananahýði og tekur óvart öryggið úr... Og allt í einu er hann ekki lengur hættulegur umhverfi sínu á þjóðvegunum, löggjafanum og umferðarstofu til mikils ama.

Það eina sem umferðarpakkið hefur rétt fyrir sér í, er að það þarf að tvöfalda alla vegi á landinu. Við erum búin að borga fyrir það, nú er komið að því að við fáum það sem við erum búin að borga fyrir öll þessi ár. Ef þarf, þá má selja nokkur sendiráð. Ekki 2+1, heldur tvöfalt báðar leiðir. Það er nefnilega umferð í báðar áttir. Bílar fara ekki bara frá Selfossi, og teleportast svo til baka. Þeir fara báðar leiðir.

Svo er þetta með kókið. Af hverju má verðið á gosi ekki lækka? Alveg kostar það nóg. En nei, það er óhollt segir lýðheilsustöð. Jæja.

Ég hugsa til kókþambara landsins, og velti fyrir mér hvort þeim er líkamlega mögulegt að drekka meira kók en orðið er. Ég held ekki. Eftir tvo lítra fer það að bragðast ekki ósvipað og sápa, nema nóg saltað snakk sé haft við hönd. Ekki býst ég við að þeir geti nokkuð drukkið meira en 4 lítra á dag hver, svo þetta verður einungis kjarabót fyrir þá, blessaða. Fyrir okkur hin, líka, sem drekkum minna.

Ullum á lýðheilsustöð. Hvað eru þeir að baula?

Og ef kók hækkar í verði, minnkar þá neyzlan? Held ekki. Því kókið er hamingjan sjálf, lífselixírinn. Ef við drekkum það ekki verðum við þunglynd og förum að taka læknadóp til að drekkja sorgum okkar. Þá verður prósak eina svarið, pakki á dag og málið er dautt.

Mjólk er góð, segja þeir... mjólk er fitandi, og til eru kenningar um skaðsemi hennar - til að mynda er hugsanlegt að hún ýti undir vöxt krabbameina. Og of mikið kalk gerir heldur engum gott.

Það er samt óþarfi að hækka verð á mjólk til neyzlustýringar. Við þurfum hana út á morgunkornið.

Umferðarstofa, lýðheilsustöð... það ætti að leggja þessi batterí niður. Nota peninginn til að lækka álögur á kók.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli